Fróðleikur um Fontana
Hveraböð og brauðgerð við Laugarvatn

Endurnærandi stopp

Frá náttúrunnar hendi einkennist umhverfi Fontana við norðanvert Laugarvatn af kraumandi jarðvarma. Í austri blasir fjallahringurinn við með Heklu, Hestfjalli, Vörðufelli og Eyjafjallajökul í hásæti.

Hveraböðin bjóða gestum fyrst og fremst að baða sig beint yfir hinum fræga og kröftuga gufuhver sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða að minnsta kosti síðan 1929. Auk þess er hægt að dvelja í heitu sánubaði, láta líða úr sér í boðunum, ganga í volgum sandinum eða kæla sig með sundspretti í Laugarvatni, skynja hina síbreytilegu íslensku veðráttu og njóta fjallasýnar.

Listaverk

Öll listaverkin eru í baðlaug okkar sem kallast SÆLA. Laugin er ílöng, um 40m að lengd og nær allt frá gufubaðinu til heita pottsins sem nefnist VISKA. Í dýpri enda laugarinnar eru verk sem höfða til hvíldar og slökunar. Þar má finna granítteppi, hvíldarlandslag sem mótað er út frá mannslíkamanum. Hægt er að finna fyrir mismunandi líkamsformum, liggja og finna þægilega stellingu fyrir öxl, hné, hæl eða rass um leið og notið er útsýnis yfir Laugarvatn.

Í grynnri hluta SÆLU eru verk sem höfða til barna og leikja. Vatn er látið renna og flæða í ýmsum formum granítsteina. Er þar steinn með 10 gata vatnsstreymi sem leika má á sem píanó. Verkin eru mótuð úr svörtu graníti og útfærð í Kína.

Erla Þórarinsdóttir nam við Konstfackskolan í Stokkhólmi og Gerrit Rietveld Akademie í Amsterdam. Hún hefur unnið við myndlist, hönnun og kennslu frá því hún útskrifaðist 1981, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum víða í Evrópu, New York, Kína og hérlendis. Verk eftir hana eru í eigu listasafna, opinbera stofnana og í einkaeigu.