
Frá náttúrunnar hendi einkennist umhverfi Fontana við norðanvert Laugarvatn af kraumandi jarðvarma. Í austri blasir fjallahringurinn við með Heklu, Hestfjalli, Vörðufelli og Eyjafjallajökul í hásæti.
Hveraböðin bjóða gestum fyrst og fremst að baða sig beint yfir hinum fræga og kröftuga gufuhver sem heimamenn og gestir hafa nýtt til heilsubaða að minnsta kosti síðan 1929. Auk þess er hægt að dvelja í heitu sánubaði, láta líða úr sér í boðunum, ganga í volgum sandinum eða kæla sig með sundspretti í Laugarvatni, skynja hina síbreytilegu íslensku veðráttu og njóta fjallasýnar.